Að læra að kveikja og slökkva á skynvillum
1. Að ná stjórn á skynbjögun
Leiðréttingarferlið hefst með því að ná stjórn á skynbjögun. Í þessu felst að læra meðvitað að kveikja og slökkva á skynvillum. Einkenni lesblindu eru einkenni skynvillu svo að þegar hinn lesblindi hefur lært að slökkva á skynvillu getur hann einnig slökkt á einkennunum. Þegar hann hefur slökkt á skynvillu hættir einstaklingurinn að skapa lesblindueinkenni. Svo kynni að virðast sem þá sé búið að leysa vandann en skynstilling er aðeins fyrsta skrefið í leiðréttingarferlinu. Það tekur oftast innan við klukkutíma að kenna skynstillingu með Davis athyglisþjálfuninni. Að því loknu lagast oftast lestrarfærni hins lesblinda til muna, ekki síst vegna þess að tekið er eftir skynvillu um leið og hún kemur fram. Svo kann að virðast að einhverjir töfrar eða kraftaverk hafi átt sér stað en reyndin er sú að hinir sönnu hæfileikar einstaklingsins eru að koma fram í dagsljósið án truflana af völdum skynvillu. Það er tilhneiging til að halda að erfitt hljóti að vera að læra það sem hefur svona dramatísk áhrif. Raunin er aftur á móti sú að það er mjög auðvelt fyrir lesblinda að gera þetta. Þeir hafa gert þetta síðan þeir voru nokkurra mánaða gamlir. Þeir gerðu sér bara ekki grein fyrir því. Með athyglisþjálfun öðlast þeir skilning á þeirri færni sem þeir búa yfir og fá í hendurnar tæki til að stjórna henni.